Um okkur

Sagan okkar

Vélaverkstæðið Þór var stofnað þann 1.nóvember 1964 í Vestmannaeyjum.
Stofnendur voru Garðar Þ. Gíslason, Hjálmar Jónsson og Stefán Ólafsson. Hjálmar snéri ekki til eyja eftir eldgosið í Heimaey árið 1973 og seldi því sinn hlut. Stefán lét af störfum og seldi sinn hlut árið 1999. Árið 2000 breytist eigendahópurinn þegar nokkrir af starfsmönnum fyrirtækisins keyptu sig inn í fyrirtækið. Voru eigendurnir þá eftirfarandi, Garðar Gíslason, Svavar Garðarsson, Jósúa Steinar Óskarsson, Friðrik Gíslason og Garðar R. Garðarsson framkvæmdarstjóri. Árið 2019 urðu miklar breytingar á eigendum þegar Askja properties ehf í eigu Daða Pálssonar og Vélsmiðjan Völundur ehf í eigu Hallgríms Tryggvasonar, Ásdísar Sævaldsdóttur og barna þeirra keyptu alla hluti í fyrirækinu. Í kjölfarið urðu breytingar þar sem Sævald Páll Hallgrímsson var ráðinn framkvæmdarstjóri og Halla Björk Hallgrímsdóttir ráðin fjármálastjóri. Seinna sama ár keyptu tveir starfsmenn sig inn í fyrirtækið Haraldur Guðbrandsson og Gústaf Adolf Gústafsson verkstjórar.
Í dag sitja í stjórn félagsins Halla Björk Hallgrímsdóttir stjórnarformaður, Sævald Páll Hallgrímsson, Daði Pálsson, Ásdís Sævaldsdóttir, Hallgrímur Tryggvason, Gústaf Adolf Gústafsson og Haraldur Guðbrandsson. Varamaður er Anna Rós Hallgrímsdóttir.

Vélaverkstæðið Þór hefur alla tíð verið í sama húsnæði við Norðursund 9 í Vestmannaeyjum. En hafa stækkað húsnæðið með árunum og árið 2008 var húsnæðið stækkað í 1300 fm. Verkstæðið er vel búið tækjum og hefur yfir að ráða mjög öflugum starfsmönnum en hjá fyrirtækinu starfa í dag 18 manns.
Image
Image
Fyrirtækið var í upphafi stofnað til að annast almenna viðgerðaþjónustu bæði fyrir fiskiskipaflotan og almenna borgara. Á upphafsárum Vélaverkstæðisins Þórs var nýsmíði búnaðar fyrir sjávarútveginn fyrirferða mikil og átti fyrirtækið þá í samstarfi við Sigmund Jóhannsson sem teiknaði ýmsar fiskvinnsluvélar s.s flokkunar og garnhreinisvélar fyrir humar, færibönd og annan búnað fyrir fiskvinnsluhús. Þór var með fyrstu vélaverkstæðunum sem smíðuðu tæki úr ryðfríu stáli. Í viðtali árið 1970 sagði Garðar Gíslason þáverandi eigandi að menn hefðu hneykslast á þessu bruðli, eins og þeir væru að nota gull í smíðina. Fljólega kom þó í ljós að þó svo að ryðfría stálið væri dýrt miðað við annað efni voru vinnulaunin svo stór hluti verksins að efni skipti ekki öllu máli. Í fiskvinnslustöðvum í Vestmannaeyjum og víðar eru enn í gangi fiskvinnsluvélar sem smíðaðar voru fyrir 30 árum. Það væri lítið eftir af þeim hefði verið járn í þeim.

Árið 1980 kom Sigmund fram með byltingarkennda aðferð til sjálfvirkrar sjósetningar á gúmíbjörgunarbátum. Sigmundsbúnaðinn, sem byggir á því að þrýstiloftbúnaður sjósetur gúmíbjörgunarbátana í þeim tilfellum sem skipverjar ná ekki að gera það sjálfir. Var hann fyrst settur um borð í skip hér á landi árið 1981. Enn þann dag í dag framleiðir Vélaverkstæðið Þór sleppibúnaðinnn sem Sigmund hannaði, Sigmundsgálga. Búnaðurinn hefur í tímans rás þrósast í framleiðslu hjá Þór. Sigmundsbúnaðurinn er sá eini sem er er framleiddur hér á landi og hefur hann bjargað mörgum mannslífum. Sigmundsbúnaðurinn er merkilegur hluti af sögu Þórs.
Fyrsti búnaðurinn var settur í KAP VE árið 1981 og gerðu þá flestir ráð fyrir að þessari viðbót við björgunarbúnað sjómanna yrði himinhöndum tekið. Sú varð þó ekki raunin og hófst löng og erfið barátta Sigmunds, Vélaverkstæðisins Þórs og áhugamanna í Vestmannaeyjum um öryggi sjómanna. Lauk þeirri báráttu ekki fyrr en 14 árum síðar þegar Siglingamálastofnun viðurkenndi hann í annað sinn. Árið 1999 lauk endanlegum prófunum á S-2000 gerðinni af Sigmundsgálganum og fékk hann þá viðurkenningu Siglingarstofnunar. Er nú skylt að hafa sjálfvirkan sleppibúnað í skipum yfir ákveðinni stærð og hafa tvær gerðir af Sigmundsbúnaði fengið löggildingu. Helstu verkefni hafa alla tíð tengst sjávarútveginum og hefur Vélaverkstæðið Þór unnið í samstarfi við sjómenn og úvegsmenn að framleiðslu búnaðar fyrir skip og báta. Hefur fyrirtækið alla tíð lagt áherslu á að bæta öryggi og vinnuaðstöðu sjómanna. Jafnframt er horft til þess að búnaðurinn bæti meðferð aflans og auki þannig aflaverðmæti.

Árið 2000 var smíðuð í Þór stærsta loðnuskilja sem smíðuð hafði verði í heiminum, sem smíðuð var fyrir Asmar skipasmíðastöðina í Chile og fór um borð í loðnuskipið Ingunni AK. Venjulegar loðnuskiljur á þeim tíma voru með síuflöt að flatarmáli um 14 til 16 fermetra en í þessum skiljum var grunnflöturinn 24 fermetrar.

Af öðrum verkefnum má nefna aðgerðakerfi, lestarbönd, smíði á færiböndum, tækjabúnað fyrir loðnuhrognavinnslu, tanka og fleira sem tengist fiskvinnslu og sjávarútvegi. En einnig hefur Þór smíðað fyrir önnur fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga. Má þar nefna loftræstikerfi, stiga, handrið og fleira. Þá hefur fyrirtækið smíðað til að mynda þrjú listaverk eftir eyjamanninn Grím Marinó Steindórsson en þau eru Súlan sem er innsiglingarviti á nyðri hafnargarðinum í innsiglingu Vestmannaeyjahafnar, Harpan sem var í fjörunni í innsiglingu Vestmannaeyjahafnar og Fálkinn sem stendur við flugvöllinn í Vestmannaeyjum.

Í janúar 2009 var fyrirtækið valið Fyrirtæki ársins 2008 í Vestmannaeyjum. Ómar Garðarsson ritstjóri Frétta sem afhenti viðurkenninguna sagði við það tilefni „ Það fer ekki mikið fyrir þeim og þeir eru ekki mikið fyrir athygli en þeir láta verkin tala og eru, þrátt fyrir hógværðina, í fremstu röð á sínu sviði“. Ómar hélt áfram og bætti við ,, Þeir eru bjartsýnir á framtíðina og er Vélaverkstæðið Þór ein af styrkum stoðum þessa samfélags“. Telja eigendur Vélaverkstæðisins þetta vera ágætis lýsing á fyrirtækinu, þar sem verkin eru látin tala. Tækifæri eru í sjávarútvegi og þegar vel gengur í sjávarútvegnum verður áhrifanna strax vart í verkefnum fyrirtækisins.

Það sem helst stendur í vegi fyrir frekari vexti fyrirtækisins er hversu fáir velja að fara í vélsmíði/vélvirkjun og rennismíði. Nauðsynlegt er að fjölga nemendum iðnámi, enda er það spennandi valkostur og greinin er orðin tækni- og tölvuvædd. Öflug teikniforrit eru notuð í að teikna upp hluti, tölvustýrðir rennnibekkir og vélar. Vélaverkstæðið fjárfesti til að mynda í mjög öflugri tölvustýrðri vatnsskurðavél sem hefur gefið fyrirtækinu aukin tækifæri í fjölgun verkefna.
Sævald Páll HallgrímssonFramkvæmdarstjórisaevald@velathor.is
Sími: 8987567
Haraldur GuðbrandssonVerkstjórihalli@velathor.is
Sími: 8684550
Gústaf Adolf GústafssonVerkstjórigusti@velathor.is
Sími: 8210174
Halla Björk HallgrímsdóttirFjármálastjórihalla@velathor.is
Sími: 8242113

Fyrirtækið

Fyrirtækið er mjög vel tækjum búið og hefur tölvustýrðum vélum fjölgað í takt við þróun slíkra tækja.

Þjónusta

Við þjónustum meðal annars sjávarútveg og fiskvinnslur.
Lesa nánar
Hafa samband

Norðursund 9, 900, Vestmannaeyjar
(+354) 481-2111
velathor@velathor.is

Fylgstu með